Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) hefur greint frá því að þó Serbía eigi að geta staðið af sér efnahagskreppu hafi sjóðurinn samþykkt liðlega 500 milljóna dala lánalínu til Serba ef á þurfi að halda.

„Serbía er eitt viðkvæmari landa þess heimshluta,“ sagði Albert Jaeger, sem er í forsvari fyrir IMF gagnvart Serbíu og samdi um lánalínuna, sem stendur í 15 mánuði. „Serbía á að geta staðið yfirvofandi fjármálaörðugleika af sér, þrátt fyrir mjög háan viðskiptahalla, veikar útflutningsgreinar og lítinn sparnað í landinu.“

Að sögn Jaegers má að miklu leyti rekja vandann nú til þess að stjórnvöld í Serbíu hafi vanrækt að búa í haginn á undanförnum árum. Landið eigi að geta staðið af sér hina alþjóðlegu lánsfjárkreppu, en að það sé að miklu leyti háð því að stjórnvöldum auðnist að taka efnahagsmálin mun fastari tökum.

Samkomulag Serbíu við IMF bíður umfjöllunar sjóðsins og framkvæmdastjórnar hans, en samkvæmt því getur Serbía dregið sér 516 milljónir Bandaríkjadala, sem nemur 75% af 700 milljón dala dráttarréttindum landsins hjá IMF.