Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) telur að Bandaríkin ættu að nýta sér lækkun olíuverðs að undanförnu og hækka olíuskatta. Hækkunin myndi minnka mengun og auka stöðugleika olíuverðs á heimsvísu. I

MF telur að lágt verð eldsneytis til neytenda hvetji til óábyrgrar neyslu sem hafi gríðarleg umhverfisáhrif. Talsmenn OPEC ríkjanna hafa gagnrýnt þessa tillögu IMF og segja að áhrifa hækkandi olíuverðs sé þegar farið að gæta, þar sem Bandaríkjamenn skipta nú í auknu mæli bensínfrekum bifreiðum fyrir sparneytnari kosti. Sala á jeppabifreiðum í Bandaríkjunum lækkaði um 14% í ágúst, en sala á smábifreiðum hefur aukist um 18%.

Olíuverð hafði ekki verið lægra síðan í mars á mánudaginn síðastliðinn, en OPEC ríkin samþykktu þá að halda framleiðslukvóta sínum óbreyttum. Meðlimir OPEC ríkjanna gáfu þó til kynna að til greina kæmi að minnka framleiðslu síðar á árinu til fyrirbyggja frekari lækkun olíuverðs í heiminum.

Olíufatið fór niður í 64,24 Bandaríkjadali á mánudaginn og er það 18% lægra en hæsta verð sem olíufatið hefur farið í, en olíufatið fór í 78,65 Bandaríkjadali fyrir um mánuði. En fulltrúar OPEC ríkjanna hafa nú auknar áhyggjur af olíuframboði og horfa nú fram á að methagnaður olíuframleiðenda sem hefur verið síðan 2003 fari að dvína.