Í nýrri skýrslu sem sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sendi frá sér í dag kemur fram að nefndin telur íslenska hagkerfið gott og sveigjanlegt þó á því megi finna ýmsa galla.

Nefndin kynnti sér íslensk efnahagsmál á fundum með fulltrúum stjórnvalda og atvinnulífsins dagana, 23. júní – 4. júlí 2008.

Í skýrslu nefndarinnar er tekið fram að þrátt fyrir góðæri hér á landi standi hagkerfið nú á tímamótum, rætt er um mikla skuldastöðu einkafyrirtækja og mikla þörf fyrir erlent fjármagn svo dæmi sé tekið en nefndin segir núverandi lausafjárskort á alþjóðavísu hafa valdið íslensku bönkunum erfiðleikum.

Nefndin tekur fram að stjórnvöld hafi þegar brugðist við. Þannig hafi Seðlabankinn hækkað stýrivexti, aukið gjaldeyrisforðann og gert skiptasamninga við aðra seðlabanka á Norðurlöndunum. Þá er einnig minnst á aðgerðir ríkisstjórnarinnar varðandi Íbúðarlánasjóð og eins að ríkisstjórnin hafi heimild þingsins til að taka erlent lán til að auka enn frekar gjaldeyrisforða landsins.

Þá gerir sendinefnd sjóðsins ráð fyrir því að enn um sinn eigi íslenska hagkerfið eftir að fara í gegnum dalinn þó langtímahorfur séu metnar góðar. Gert er ráð fyrir hjöðnun næstu ársfjórðunga, hárri verðbólgu fram á næsta ár og samdrætti í neyslu.

Þá leggur nefndin sérstaka áherslu á starfsemi Fjármálaeftirlitslins og segir að með góðu samstarfi FME og Seðlabankans verði hægt að koma í veg fyrir óreiðu á fjármálamörkuðum, til dæmis að þeim atriðum sem snúa að rétt hluthafa.

Skýrsluna má nálgast á vef Seðlabankans .