Órói á fjármálamörkuðum mun hafa áhrif á hagvöxt í alþjóðahagkerfinu, segir John Lipsky, annar af tveimur aðstoðarframkvæmdastjórum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) í samtali við Financial Times. Hann segir jafnframt að ábyrgðin liggi ekki á herðum þekktra matsfyrirtækja fyrir að hafa að vanmetið áhættu í starfsemi fjármálafyrirtækja.

Þetta mun vera í fyrsta skipti sem jafn háttsettur embættismaður á vegum sjóðsins tjáir sig opinberlega um titringinn á fjármálamörkuðum, sem má rekja til vanskila sem tengd eru áhættusömum fasteignalánum (e. subprime) í Bandaríkjunum. Að mati Lipsky mun þetta "óhjákvæmilega draga úr hagvexti í heiminum."

Ólgan á fjármálamörkuðum mun ekki einskorðast við samdrátt í hagvexti í Bandaríkjunum - en fastlega er gert ráð fyrir að hann verði minni en ella - heldur einnig í öðrum hagkerfum heimsins. Lipsky bendir í því samhengi á þá staðreynd að flest fjármálafyrirtæki sem hafa orðið fórnarlamb áhættusamra fasteignalána eru ekki bandarísk.

Skjót lausn er ekki handan við hornið
Það er mat flestra sérfræðinga að nýmarkaðsríki séu mun næmari fyrir áföllum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum en þróaðri ríki. Hins vegar sagði Lipsky að nýmarkaðir (e. emerging markets) hefðu hingað til staðist áskorunina - jafnvel betur en margir höfðu vonast eftir. Ef horft er til vandræða nýmarkaðsríkjanna í einni heild - fremur en hvert ríki fyrir sig - þá kemur í ljós að markaðir landanna hafa sveiflast algjörlega með fjármálamörkuðum þróaðri ríkja. Lipsky telur að nýmarkaðsríki séu nánast undantekningarlaust betur í stakk búin til að glíma við þá stöðu sem nú er upp komin á fjármálamarkaði: Hagvöxtur er ekki á undanhaldi, grunnstoðir raunhagkerfisins eru öflugar, auk þess sem sjálft fjármálakerfi ríkjanna og regluverk þess hefur tekið miklum framförum á undanliðnum árum. Af þeim sökum er "geta slíkra ríkja til að standast þann óróa sem ríkt hefur betri en áður," segir Lipsky.

Hann varar þó við of mikilli bjartsýni. Skjót lausn á vandræðunum er ekki handan við hornið - óvissan um þessar mundir er enn of mikil til að hægt sé að leyfa sér slíkt mat. "Það mun taka tíma fyrir markaði að ná aftur eðlilegu jafnvægi," segir Lipsky.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.