Undirritaður hefur verið samningur um samruna IMG og KPMG Ráðgjafar. IMG Deloitte viðskiptaráðgjöf og KPMG Ráðgjöf munu framvegis starfa undir nafninu IMG Ráðgjöf. Sameiningin tekur formlega gildi um næstu áramót. Með sameiningu félaganna verður til stærsta fyrirtæki landsins á sviði rekstrar- og stjórnunarráðgjafar.

Bjarni Snæbjörn Jónsson og Ragnar Þórir Guðgeirsson munu í sameiningu fara með framkvæmdastjórn hins nýja ráðgjafarsviðs. Fyrst í stað verður starfsemi IMG Ráðgjafar á tveimur stöðum; í húsnæði IMG að Laugavegi 170 og í KPMG-húsinu að Borgartúni 27.

"Mikil samlegðaráhrif verða við sameiningu IMG og KPMG Ráðgjafar. Óveruleg skörun hefur verið í vöru- og þjónustuframboði þar sem IMG hefur á undanförnum árum lagt áherslu á þjónustu í stefnumótun, starfsmannaráðgjöf, ráðningarþjónustu, rannsóknum og fræðslu en KPMG Ráðgjöf í fjármálum, upplýsingatækni og stefnumótun. Með sameiningunni verður til ráðgjafarfyrirtæki sem boðið getur fyrirtækjum þjónustu sem er fyllilega sambærileg við þá sem þekkt erlend ráðgjafarfyrirtæki veita," segir frétt á heimasíðu IMG.

Þar kemur einnig fram að talsverðar breytingar hafa orðið hjá báðum fyrirtækjum á yfirstandandi ári. IMG seldi Fjölmiðlavaktina fyrr á árinu og í september var eignarhald KPMG Ráðgjafar aðskilið frá KPMG Endurskoðun. Með breytingum í tengslum við samrunann verður til fjárhagslega sterkt félag sem er í stakk búið til að taka þátt í sókn íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði.

Félagið stefnir að áframhaldandi góðu samstarfi við bæði endurskoðunar-fyrirtækin KPMG og Deloitte þótt ekki verði um bein eignatengsl að ræða.

Eftir samrunann verða starfsmenn IMG alls um 120 talsins en þar af eru 70 starfsmenn á sameinuðu ráðgjafarsviði IMG. Rannsóknar- og upplýsingasvið IMG, IMG Gallup, mun starfa áfram í óbreyttri mynd. Framkvæmdastjóri IMG er Skúli Gunnsteinsson.