Það verður fjölbreyttur Viðskiptaþáttur sem hefst á Útvarpi Sögu FM 99,4 klukkan 16 í dag. Undirritaður hefur verið samningur um samruna IMG og KPMG Ráðgjafar. Sameiningin tekur formlega gildi um næstu áramót en með sameiningu félaganna verður til öflugasta rannsókna- og ráðgjafarfyrirtæki landsins sem býr yfir víðtækri reynslu á öllum sviðum rekstrar- og stjórnunarráðgjafar. Rætt verður við Bjarna Snæbjörn Jónsson, og Ragnar Þóri Guðgeirsson sem munu stýra sameinuðu félagi.

Það liggja 700 milljónir króna í ruslinu hjá fyrirtækjum í Reykjavík, en Reykjavíkurborg hefur tekið þá ákvörðun að hætta sorpþjónustu við fyrirtæki um næstu áramót. Kostnaður borgarinnar við þjónustuna hefur verið um 700 milljónir króna á ári og munu einkaaðilar taka alfarið við þjónustunni. Kjartan Valgarðsson, markaðsstjóri Gámaþjónustunnar, lítur í heimsókn til að ræða þetta, en eins og gefur að skilja er hann ánægður með þessa þróun.

Þegar klukkan er hálf fimm verður rætt við Arnþór Halldórsson, framkvæmdastjóra IP fjarskipta, en IP fjarskipti eru að markaðssetja þessa dagana HIVE, sem er vörumerki fyrir internetþjónustu, símaþjónustu og sjónvarpsdreifingu yfir Netið með DVD gæðum. HIVE ætlar að hjóla í Símann og Og Vodafone, en við ætlum meðal annars að ræða við Arnþór um samkeppnisumhverfið á þessum markaði sem hefur gjörbreyst á skömmum tíma - það eru fjarskiptafyrirtækin sem ráða að stærstum hluta framþróun á fjölmiðlamarkaði í dag.

Og undir lok þáttarins verður greint frá niðurstöðum könnunar sem breska viðskiptablaðið Financial Times og endurskoðunarfyrirtækið PriceWaterHouseCoopers gerðu á dögunum um virtustu fyrirtæki heimsins. General Electric er enn og aftur á toppi listans og Bill Gates er virtasti stjórnandinn. Alls tóku 915 stjórnendur í yfir 25 löndum þátt í könnuninni en þetta er í sjöunda skipti sem Financial Times og PwC gera hana. Í henni kemur meðal annars fram að þeir aðilar sem stjórnendur vildu helst sjá í stjórnum fyrirtækja sinna eru Winston Churchill, Jesús og Leonardo daVinci!