IMG hefur keypt ráðgjafarfyrirtækið KPMG Advisory, dótturfélag KPMG endurskoðunarskrifstofunnar í Danmörku, í samvinnu við stjórnendur og lykilstarfsmenn danska fyrirtækisins. Í tilkynningu fyrirtækisins kemur fram að þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt ráðgjafarfyrirtæki haslar sér völl erlendis með þessum hætti. Með þessum kaupum tvöfaldast ársvelta IMG og starfsmenn samstæðunnar verða 200 í tveimur löndum. Félagið hefur fyrirætlanir um frekari útfærslu starfseminnar og áframhaldandi vöxt á Norðurlandamarkaði.

"Með þessum kaupum erum við að treysta starfsemina, fjölga þjónustuþáttum, fá aðgang að áhugaverðum markaði og auðvelda okkur að sinna umfangsmiklum rannsóknar- og ráðgjafarverkefnum, meðal annars með mörgum stærstu viðskiptavinum IMG sem eru í alþjóðlegum rekstri,? sagði Skúli Gunnsteinsson, forstjóri IMG í tilkynningu fyrirtækisins. ?Það má segja að með þessum kaupum hafi íslensk ráðgjafarstarfsemi slitið barnsskónum. Við munum miðla þekkingu og lausnum milli íslenska og danska félagsins og efla þannig þjónustuframboð í báðum löndum.?

Advisory, sem verður nú dótturfyrirtæki IMG, hefur yfir að ráða þekkingu á ráðgjöf á sviði fjármála, stjórnendaupplýsinga, flutningamála (logistics), kostnaðareftirlits og rekstar, sem að mörgu leyti er viðbót við starfsemi IMG hér á landi. IMG býður nú þjónustu á sviði rannsókna, stefnumótunar og áætlanagerðar, fjármála, stjórnendaupplýsinga, mannauðs-, markaðs-, sölu- og þjónustumála.

Lykilstjórnendur IMG og KPMG Advisory eru á einu máli um að með því að losa eignatengsl milli danska félagsins og endurskoðunarfyrirtækisins muni skapast miklir sóknarmöguleikar í ráðgjöf. KPMG Advisory hefur hingað til ekki getað veitt þeim fyrirtækjum ráðgjafarþjónustu sem hafa keypt endurskoðun af KPMG, eins og vinnureglur endurskoðunarfyrirtækisins segja til um, en það á við um 50% allra skráðra félaga á danska markaðinum. Af sömu ástæðu hefur KPMG Advisory aðeins haft heimild til að bjóða ráðgjafarþjónustu á takmörkuðu sviði og m.a. ekki getað veitt þjónustu á sviði stefnumótunar, innleiðingar upplýsingakerfa eða ráðninga, svo dæmi séu tekin.

Ástæða þess að KPMG selur ráðgjafarfyrirtækið er stefna KPMG og fleiri alþjóðlegra endurskoðunarfyrirtækja að draga sig að mestu út úr ráðgjafarstarfsemi. Þetta er þriðja sameiningin sem IMG á aðild að þar sem þannig háttar til. IMG Ráðgjöf varð til eftir sameiningu IMG við KPMG ráðgjöf á Íslandi, en áður hafði ráðgjafararmur IMG sameinast ráðgjafareiningu Deloitte hérlendis. IMG var stofnað 1990 og er stærsta rannsóknar- og ráðgjafarfyrirtæki landsins.

Auk ráðgjafarstarfseminnar er í bígerð að byggja ný svið innan Advisory í Kaupmannahöfn, sem IMG hefur þegar haslað sér völl á hér heima. Þar má til dæmis nefna rannsóknar- og ráðningarþjónustu sem fæst við mönnun og starfsmannaval. Á sama hátt stendur til, með kaupum IMG á KPMG Advisory, að breikka og styrkja þjónustuframboð íslenska fyrirtækisins. Bjarni Snæbjörn Jónsson verður framkvæmdastjóri danska ráðgjafarfyrirtækisins og mun Ragnar Þórir Guðgeirsson í kjölfarið taka við framkvæmdastjórn IMG Ráðgjafar á Íslandi.

Íslandsbanki veitti ráðgjöf varðandi kaupin og sá um fjármögnun. Kaupverðið á KPMG Advisory er trúnaðarmál, en Skúli segir þetta vera í alla staði góða fjárfestingu fyrir IMG. ?Við erum að kaupa fyrirtæki sem hefur sterka rekstrarsögu í á annan áratug og hefur ætíð skilað góðri afkomu.?