Ímynd Guðmundar steinGrímssonar er að miklu leyti óljós í hugum fólks. Hann er ekki búinn að skapa sér ímynd leiðtoga og geldur fyrir það að vera reikull í pólitískum sporum sínum á undanförnum árum, að mati Hallgríms Óskarssonar, ímyndar- og samskiptaráðgjafa,um niðurstöðu nýafstaðinna alþingiskosninga. Viðskiptablaðið fékk Hallgrím til að fara yfir stöðu og ímynd formanna flokkanna.

„Þótt Guðmundur hafi verið að styrkjast í framkomu þá á hann eftir að taka út meiri þroska áður en það kemur í ljós hvort hann sé þungavigtarmaður eða ekki. Hann er einhvern veginn bara nýhættur að vera strákur, talandinn er ekkert sérstakur og hann vantar næmni fyrir hnyttnu orðavali og skemmtilegri framsögn. Hann er óstyrkur í augnaráði þegar hann segir sínar mikilvægustu setningar, alveg öfugt við hvernig góðir talsmenn beita sínu andliti á slíkum stundum.

„Guðmundur þarf því að efla marga þætti ef hann ætlar að vera stjórnmálaleiðtogi til lengri tíma enda er ímynd hans sem einstaklings sem getur stýrt þjóðarskútunni ekki sterk. Hann hefur stundum birst með hljóðfæri við hönd og sungið og leikið fólki til skemmtunar. Hann ætti alveg að hætta því ef hann vill efla sína þungavigtarímynd sem stjórnmálamanns. Ef menn ætla að komast upp með hliðarímynd, eins og Jón Gnarr gerir, þá verður sú ímynd að vera sterk til að falla með sterkri, pólitískri ímynd.“