*

þriðjudagur, 15. júní 2021
Innlent 25. apríl 2018 15:44

Ímynd Íslands rædd á fundi Charge

Nýta má orku til að auka jákvæða ímynd Íslands að mati forystumanna Brims, Íslandsstofu, Norðuráls og Jónson & Le'mack.

Ritstjórn
Friðrik Larsen, lektor við Háskóla Íslands og stofnandi CHARGE, stýrði fundinum.
Aðsend mynd

CHARGE - Energy Branding stóð fyrir morgunfundi um sjálfbæra orku og samkeppnisforskot Íslands á Hotel Nordica í gærmorgun. Markmið fundarins var m.a. að skoða hvernig hinar ýmsu atvinnugreinar á Íslandi geta nýtt sér þá hreinu orku sem er til staðar hér á landi til að þróa jákvæða ímynd og þannig auka virði vara og vörumerkja.

Fyrirlesarar á fundinum voru Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður hjá Íslandsstofu, Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, og Viggó Jónsson, hjá Jónsson & Le'macks.

„Jarðvarmi er þriðja mest nefnda atriðið sem fólk tengir við Ísland. Ímynd Íslands er hrein náttúra, óspillt, fallegt, sjálfbært og öruggt land. 99% ferðamanna eru jákvæðir gagnvart endurnýjanlegum orkugjöfum. Orkan er alls staðar í ferðaþjónustu," sagði Inga Hlín m.a. í sínu máli á fundinum.

Höfum magnaða sögu að segja

Guðmundur forstjóri Brims sagði íslenskan sjávarútveg einn þann best rekna í heimi. „Við sem þjóð höfum góða sögu að segja og það er ákveðin ímynd. Það þarf að taka skýra stefnu með ábyrgum hætti í þessum málum. Við þurfum að hugsa vel um náttúruna hvort sem um er að ræða sjávarútveg, stóriðju eða ferðamannaiðnað," sagði Guðmundur m.a. á fundinum.

„Við höfum magnaða sögu að segja. Ekkert land í heiminum nálgast okkur hvað varðar endurnýjanlega orku. Hrein náttúra og orka er okkar verðmætasta söluvara. Orka getur spilað saman með stjóriðju og fiskveðium og styrkt ferðamannaiðnaðinn enn frekar," sagði Viggó hjá Jónsson & Le'macks.

Ragnar, forstjóri Norðuráls, sagði að Íslendingar eigi umhverfisvænasta ál í heimi. „Íslenskt ál er sífellt eftirsóttara meðal framleiðenda sem vilja draga úr kolvetnisspori. Við erum með hreinustu orku, grænasta ál og lægsta kolvetnisfótspor í heimi," sagði Ragnar m.a. í sinni tölu.

Hrein orka til aðgreiningar

Öll voru þau sammála um að gæði vörunnar séu mikilvæg en samvinna ýmissa atvinnugreina í þessum málum sé enn mikilvægari og auki möguleikana á að nýta hreina orku landsins til að þróa jákvæða ímynd og auka virði vara og vörumerkja í ýmsum geirum.

„Það er ljóst að hrein og endurnýjanleg orka gefur íslensku atvinnulífi tækifæri til aðgreiningar frá alþjóðlegum keppinautum," sagði Dr. Friðrik Larsen, lektor við Háskóla Íslands og stofnandi CHARGE, en hann stýrði fundinum.