*

fimmtudagur, 6. maí 2021
Innlent 5. júní 2016 17:02

Ímynd orkufyrirtækja almennt slæm

Dr. Friðrik Larsen hefur undanfarið haslað sér völl á sviði vörumerkjastjórnunar í orkugeiranum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Dr. Friðrik Larsen, lektor við Háskóla Íslands og fráfarandi stjórnarformaður ÍMARK, hefur undanfarið haslað sér völl á sviði vörumerkjastjórnunar í orkugeiranum (e. Energy Branding).

Hver er munurinn á markaðssetningu rafmagns og annarri markaðssetningu?

„Þetta snýst að vissu leyti um pólitík. Sumir eru til dæmis á móti því að einkafyrirtæki hlutist til um jafn mikilvægan þátt og framleiðslu rafmagns og telja aðríkið eigi að skaffa það á ódýran máta, rétt eins og við höfum rétt á súrefni og vatni og slíku. Einhverjir eru á móti rafmagnsfyrirtækjum fyrir þessar sakir. Í Evrópu hafa þau kannski staðið sig illa í áraraðir og almennt er ímynd þessara orkufyrirtækja slæm. Þá þarf að byrja á að slétta það sem fyrir er. Ég tek oft sem dæmi að eftir æfingu þarftu að fara í sturtu og hreinsa þig og gera það vel og síðan geturðu sett svitasprey og rakspíra, en sum af þessum orkufyrirtækjum fara beint í að spreyja á sig rakspíranum. Þau þurfa aðeins að hreinsa sig fyrst, því áraraðir af hugmyndum og ímyndum sem fólk hefur af þeim er eitthvað sem þarf að vinna í. Framleiðsla á orku krefst líka mikils af umhverfinu og það þarf líka að taka það til greina í markaðssetningu.“

En hugsar fólk um það yfirhöfuð hvaðan það fær rafmagn? Er þetta ekki vara sem „er bara þarna“?

„Fólki er almennt sama og það spáir kannski í rafmagn einu sinni til tvisvar í mánuði, þegar það fær reikninginn og þegar rafmagnið fer af. Hvoru tveggja er neikvætt og fólk á í raun ekki í neinum samskiptum við þann sem selur rafmagnið. Þá þarf að stuðla að og koma á gagnvirku sambandi á milli viðskiptavinar og fyrirtækis. Til þess eru margar leiðir, t.d. með leikjum eða appi um orkunotkun, það er margt sem hægt er að gera til að fá fólk til að hugsa um að þetta skipti máli. Þegar þú átt í samskiptum við viðskiptavini er þeim ekki lengur sama, og þar þarf vörumerkjastjórnun. Fyrir tíma uppskiptingar markaða, þá þurfti aðallega góða verkfræðinga.

Ítarlegt viðtal er við Dr. Friðrik Larsen í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á helkkinn Tölublöð.