Að sögn Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Kauphallar Íslands, á það vandamál sem nú er við að glíma á mörkuðum heimsins sér töluverðan aðdraganda. "Það stafar einfaldlega af því að áhættuálag á lánveitingar hefur farið lækkandi undanfarin misseri sem birtist sérstaklega skýrt í þessum "subprime" lánum (áhættusömum fasteignalánum). Það hlaut að koma að þessu en fyrstu einkennin, sem menn sáu mjög skýrt, voru þegar markaðurinn í Sjanghaí í Kína féll mjög skarpt í lok febrúar. Þá fannst mér ég sjá fyrstu merki þess að þarna væri eitthvað á ferli sem kallaði á einhverskonar leiðréttingu," segir Þórður í viðtali við Viðskiptablaðið í dag.

Síðan gerist ýmislegt sem kemur mönnum meira úr jafnvægi en ástæða er til, þar sem menn eru almennt sammála um að grundvallaratriðin í hagkerfum heimsins eru traust. Það sem veldur þessu er að það þekkir enginn vandann. Það vantar allt skyggni á markaðinum og því leikur ímyndunaraflið lausum hala. Það eru allir að velta fyrir sér hvað er þarna úti. Þegar það gerist að ímyndunaraflið fer á kreik, vegna þess að ekkert sést, þá magnar það vandann. Mér finnst það dálítið einkenni á ástandinu núna að það treystir sér engin til þess að skýra hvað "subprime" og tengd vandamál ná langt. Það er vegna þess að vanmat á áhættuálagi á lánveitingum er nokkuð almennt."

Þórður að það væri augljóst að menn gerðu sér ekki grein fyrir hve stórt vandamálið er. "Undanfarnar vikur hafa því verið að koma ný slæm tíðindi á hverjum degi og það setur menn aftur og aftur úr jafnvægi. Ég held að það verði áfram umrót á markaðinum. Ég á hins vegar ekki von á því að það verði mikil verðlækkun umfram það sem orðið hefur nema þá í mjög skamman tíma. Leiðréttingin er orðin töluverð og það eru áreiðanlega farin að myndast árennileg kauptækifæri víða."

Að sögn Þórðar er eitt af því sem hefur komið mjög skýrt fram og hefur einkennt þróunina undanfarinna daga að markaðurinn á Íslandi kallast algerlega á við það sem er að gerast erlendis. Þess vegna sé skynsamlegt að meta það sem er að gerast í heimsmálunum fremur en að halda sig eingöngu við Ísland.

?Ég sé ekki ástæðu til að ætla að vandinn heima sé stærri en annars staðar. Þvert á móti gæti hann verið minni ef eitthvað er.

Þetta er hins vegar töluvert vandamál út frá hagstjórnarsjónarmiði. Seðlabankar út um allan heim hafa verið að bregðast við með þeim hætti að dæla inn fjármagni. Það eru textabókarviðbrögð en menn gera sér líka grein fyrir því að þegar eru lausafjárerfiðleikar er takmarkað hvað stjórnvöld geta yfirleitt gert. Það er hægt að dæla út peningum en það verða að vera einhverjir sem taka við peningum til að málið leysist. Þetta er því ekki að öllu leyti í höndum stjórnvalda að koma þessu í gang aftur. Það mun taka markaðinn nokkurn tíma að átta sig á því hvað þetta er stórt og hvert er í raun vandamálið. Á meðan verður taugatritringur.

Þegar hins vegar er horft til þess hverjar horfurnar eru í efnahagsmálum, bæði heima og erlendis, og hverig grunnþættirnir er ekki ástæða til að ætla annað en að þetta verði skammvinnt. Það eru traustar undirstöður. Allar spár í heiminum hafa til þessa verið nokkuð bjartsýnar á hagvöxt og þróun á þeim vettvangi. Þess vegna er ekki ástæða til þess að ætla að þetta verði langvarandi vandi. Ég á hins vegar von á því að það taki töluverðan tíma fyrir markaðinn að klára sig í gegnum þetta og þá er ég fyrst og fremst að tala um að það er svo lítið skyggni. Á meðan láta menn ímyndunaraflið leika of mikið lausum hala og magna þannig upp vandamálið. ?

Þetta er ítarlegri og lengri útgáfa af viðtali sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag.