Íslandsmót iðngreina hófst í morgun í gömlu Laugardalshöllinni. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra setti mótið kl. 11 og stendur það til kl. 18 í dag, föstudag, og kl. 9-18 á morgun, laugardag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Iðnmennt.

Keppt verður í 11 greinum á mótinu og alls eru hátt í 80 keppendur skráðir til leiks. Markmið Íslandsmóts iðngreina, sem Iðnmennt stendur fyrir, er að vekja athygli á iðn- og starfsmenntun, kynna almenningi iðngreinar – ekki síst ungu fólki – og vekja athygli á þeim tækifærum sem felast í námi og starfi í iðngreinum. Alls verða á mótinu fulltrúar um 20 iðn- og starfsgreina.

Fyrirkomulag mótsins í ár er breytt frá því sem verið hefur að því leyti að nú ber það yfirskriftina Íslandsmót iðngreina í stað Íslandsmóts iðnnema.

Íslandsmót iðngreina er undanfari og forkeppni einstakra keppnisgreina fyrir þátttöku í Euro Skills og World Skills sem er alþjóðleg keppni iðngreina. Meira er lagt í keppnisgreinarnar nú en áður og viðfangsefnin í flestum tilvikum veigameiri og meira krefjandi. Markmiðið með breyttu fyrirkomulagi er m.a. að auka þátttöku atvinnulífsins í mótinu og efla tengslin milli þess og iðnskólanna.

Íslandsmótið er ætlað iðnnemum og nýútskrifuðum iðnaðarmönnum, 22 ára og yngri.

Keppt er í eftirtöldum greinum: Málmsuðu, trésmíði, pípulögn, bílaiðngreinum, múrverki, málaraiðn, dúklagningum, hársnyrtingu, snyrtifræði, upplýsinga- og fjölmiðlagreinum og rafvirkjun. Auk þess eru nokkrar aðrar greinar kynntar á mótinu; fatahönnun, matvælaiðngreinar, skrúðgarðyrkja, gluggaútstillingar og rafeindavirkjun.

Ennfremur er hægt að kynna sér iðn- og starfsmenntun en á  upplýsingaborði mótsins er kynningarefni frá öllum iðn- og verkmenntaskólum landsins.

Þá verða fulltrúar frá Sambandi íslenskra framhaldsskólanema með kynningar á sínum skólum. Varpað verður beint frá mótinu á vefnum í boði nema í rafeindavirkjun í Iðnskólanum í Reykjavík. Slóðin er: http://skillsiceland.is/islandsmot-idngreina/islandsmot-idngreina/vefvarp.html .

Verðlaunaafhending verður á morgun, laugardag, kl. 16.30. Verðlaunin afhendir Árni Már Heimisson, sem var Íslandsmeistari og Norðurlandameistari í pípulögnum 2007 og tók þátt í World Skills 2007, Heimsmóti iðngreina, í Japan fyrir Íslands hönd, fyrstur Íslendinga til að taka þátt í því móti.