„Við þurfum að gera okkur mat úr þeirri gnægð sem Ísland býr yfir af endurnýjanlegri orku og koma okkur í þá aðstöðu að við getum boðið fyrirtækjum af ýmsum stærðum og gerðum sem eru háð orkunýtingu og menga lítið, tækifæri til þess að skapa nýjar útflutningsgreinar á Íslandi. Það er mikilvægt að hafa til reiðu orku þannig að við getum valið inn þá tegund iðnaðar sem við teljum að falli inn í græna orkuímynd landsins. Samhliða þessu er nú unnið að mótun orkustefnu sem ætlað er að ná utanum þau stóru verkefni sem framundan eru á orkusviðinu" sagði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra á iðnþingi í dag.

Hún sagði að með ákvörðun um gerð Rammaáætlunar byggði ríkisstjórnin á þeim ásetningi að verða í fararbroddi þjóða heims í umhverfismálum. Jafnframt væri að því stefnt að ákveða hvaða svæði yrðu í framtíðinni tekin til ábyrgrar og sjálfbærrar orkunýtingar.

"Græna orkan er okkar stóra tromp. Og nýsköpun á sviði umhverfis- og orkutækni á að verða okkar helsta samkeppnisvopn á næstunni. Bæði austan hafs og vestan eru verkefni sem tengjast því að draga úr losun gróðurhúslofttegunda að fara á fulla ferð með miklum stuðningi stjórnvalda. Þarna eru á ferðinni ýmiskonar viðskiptatækifæri fyrir mörg ágæt fyrirtæki á Íslandi. Við getum bæði á alþjóðavettvangi og hér innanlands náð miklu meiri árangri en gert hefur verið með hagnýtingu á tækniþekkingu okkar," sagði Katrín.