Ágreiningsmál kom upp á milli stjórnarflokkanna í þingumræðum um stefnu í virkjunarmálum á Alþingi fyrir helgi.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins spurði Jón Bjarnason, formann þingflokks Vinstri grænna (VG) hvort hann væri sammála Össuri Skarphéðinssyni, iðnaðarráðherra um að selja einstaka virkjanir til innlendra og erlendra aðila.

Í fyrirspurn sinni vitnaði Birgir í fréttir Stöðvar 2 þar sem Össur hafði lýst yfir áhuga sínum á því að selja virkjanir og nefnt sem dæmi Búðarhálsvirkjun.

Þá kom einnig fram að Össur hafði vísað til nýlegra lagabreytinga sem opna á eignarhald útlendinga á virkjunum án þess þó að þeir geti átt orkulindirnar sjálfar. Í samtali við Stöð 2 kvaðst ráðherrann tilbúinn til að skoða alla hluti ef það mætti verða til þess að skapa atvinnu og tekjur.

Birgir sagðist fagna yfirlýsingu iðnaðarráðherra og vera sammála honum um það að við núverandi aðstæður verði að leita leiða sem geta skapað atvinnu og tekjur.

Hann spurði hins vegar hvort þingflokkur VG væri sammála og hvort þessar þreifingar eða aðgerðir iðnaðarráðherra væru í samræmi við stefnuna sem ríkisstjórnin hefði markað.

Jón Bjarnason, formaður þingflokks VG sagði að stefna flokksins væri alveg skýr.

„Við erum þeirrar skoðunar að bæði orkuauðlindir og allar stærri virkjanir eigi að vera í samfélagseigu. Það er grundvallarhugsjón okkar. Þetta er hluti af þeim samfélagslega auði sem við eigum og nýtum saman til að efla atvinnulífið í landinu,“ sagði Jón í svari sínu.

„Ég veit ekki betur en að á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar sé einmitt að leggja fram tillögu og reyna að tryggja að í stjórnarskrá verði staðfest óumdeilanlega að auðlindir séu þjóðareign.“

Þá sagði hann að það hefði staðið á sjálfstæðismönnum undanfarin ár að breyta stjórnarskránni með fyrrnefndum hætti.

Össur Skarphéðinsson, iðnarráðherra gerði þá athugasemdir við málflutning Jóns. Hann sagði að það væri ekki rétt að sjálfstæðismenn hefðu verið á móti því að auðlindir yrðu varðveittar í þjóðareigu. Í ræðu sinni vitnaði Össur til þess að Bjarni Benediktsson hefði verið formaður starfshóps stjórnarskrárnefndar sem komst að þeirri niðurstöðu að breyta ætti stjórnarskránni með þeim hætti að auðlindir yrðu í þjóðareign.

Þá sagði Össur að það væru lög í landinu sem kæmu í veg fyrir að virkjanir yrðu seldar en þau heimiluðu hins vegar að leigja vatns- og orkuréttindi til ákveðins árafjölda.

„Hins vegar segi ég það sem iðnaðarráðherra að Íslendingar eru í klípu og ég lít á það sem hlutverk mitt að leita allra leiða til að reyna að koma þjóðinni út úr þeirri klípu,“ sagði Össur.

Hér má sjá umræðuna alla.