Ríkisstjórnin er mjög nálægt því að ná samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF). Slíkt samkomulag mun síðan hafa í för með sér frekari aðstoð frá Norðurlöndunum og Japan. Þetta hefur Bloomberg eftir Össuri Skarðhéðinssyni, iðnaðarráðherra, í kvöld.

„Við erum meðlimir hinnar samnorrænu fjölskyldu,” segir Össur. „Við erum í raun að halda því augljósa fram með því að segja að Norðurlöndin verði meðal þeirra þjóða sem aðstoða okkur í yfirstandandi ástandi, þegar og ef við hljótum aðstoð IMF. Okkar tengiliðir tjá okkur að þegar samkomulagi verður náð milli IMF og Íslands, munu nágrannar okkar einnig koma við sögu. Við höfum raunar staðfestingu fyrir nokkru sem ég myndi telja afar rausnarlega lánveitingu,” segir Össur í samtali við Bloomberg. Hann bendir einnig á að Japan kæmi við sögu í lánveitingu til Íslands.

Financial Times greindi frá því í dag að lán IMF, Norðurlandanna og Japans til Íslands myndi nema um 6 milljörðum dollara, þar af einn milljarður frá fyrstnefnda aðilanum. Össur vildi ekki tjá sig um þá frétt í samtali við Bloomberg.

Skuldabréf á útsölu

Loks greinir Bloomberg frá því að skuldabréf íslensku bankanna séu nú nánast verðlaus, eftir að ríkið hóf endurskipulagningu á starfsemi þeirra. Skuldabréf Kaupþings, Glitnis og Landsbankans seljast nú fyrir um það bil þrjú bandarísk sent, samkvæmt upplýsingum KNG Securities.