Iðnaðarvörur voru á síðasta ári rúmlega 52% alls útflutnings. Þetta er í fyrsta sinn frá upphafi skráningar á árlegum útflutningi árið 1862 sem iðnaðarvörur eru meiri en helmingur alls útflutnings. Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar fyrir síðasta ár var hlutdeild iðnaðar meiri en sjávarafurða, en ál vó þar þyngst.

Bent er á í frétt á heimasíðu Samtaka iðnaðarins að verðmæti iðnaðarvara í útflutningi jókst um 46% frá árinu 2007. Hlutfall af útfluttum sjávarafurðum hefur ekki verið lægra frá árinu 1865 en það var tæplega 37% af heildarútflutningi síðasta árs. Verðmæti þeirra var 5,3% minna en á sama tíma árið áður.

Halli á vöruskiptum við útlönd á síðasta ári var tæpum 122 milljörðum minni en árið 2007 þegar hann stóð í 127,5 milljörðum króna. Á síðasta ári nam hallinn 5,6 milljörðum segir í frétt SI.

Heildarverðmæti vöruútflutnings á síðasta ári var rúmlega 35 milljörðum meiri en á sama tíma árið 2007 samkvæmt bráðabirgðatölunum, eða 8,1% á föstu gengi.

Fluttar voru út vörur í desembermánuði fyrir tæpa 54 milljarða en innflutningur nam tæpum 30 milljörðum. Vöruskipti voru því hagstæð um rúmlega 24 milljarða, en þau voru óshagstæð um tæpa 17 milljarða árið 2007 miðað við sama gengi.

Stærstur liður innflutnings, sem var tæpum 87 milljörðum minni en árið áður, voru hrá- og rekstrarvörur með 32% hlutdeild og fjárfestingarvara með 21%.