Iðnaður hefur verið að vaxa hröðum skrefum hérlendis sem hlutfall af verðmætasköpun í landinu. Er svo komið að 24,5% verðmætasköpunarinnar á uppruna sinn í iðnaði. Þar hefur vöxturinn verið mestur í mannvirkjagerð sem var 10,3% af heildarkökunni árið 2006 samkvæmt samantekt Samtaka iðnaðarins.

Athyglisvert er að mannvirkjagerð er að skila nærri tvöfaldir verðmætasköpun á við sjávarútveg og fiskvinnslu sem skilaði 5,8% fyrir árið 2006. Þá skilaði landbúnaður aðeins 1,3%. Líka er athyglisvert að öll fjármálaþjónusta og tryggingar, sem hafa verið mjög í sviðsljósinu, voru samanlagt að skila heldur minni verðamætasköpun er mannvirkjagerðin ein og sér árið 2006 eða 10,2% á móti 10,3%.   Veltan í mannvirkjagerð á Íslandi  hefur stöðugt verið að aukast frá árinu 2002. Það ár var veltan í greininni 74,4 milljarðar króna en árið 2006 var velta fyrirtækja í mannvirkjagerð ríflega 222 milljarðar króna. Þá benda tölur til að veltan hafi verið 270 milljarðar króna árið 2007. Hefur engin önnur atvinnugrein á landinu aukið veltu sína jafn mikið á tímabilinu frá 2002 til 2007.