„Ég tel að iðnaðurinn, í víðustu merkingu þess orðs, eigi eftir að gegna lykilhlutverki í uppbyggingu landsins eins og hann hefur gert nú í áratugi og skapa þau 30.000 störf sem við þurfum að skapa til ársins 2020. Að halda að framtíðarstörf skapist í sjávarútvegi og landbúnaði er hættulegt og einungis til að draga úr framförum," segir Sigurður Bragi Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Plastprents sem nú stjórnar iðnframleiðslufyrirtæki í Kína.

„Landbúnaðurinn er með 1% af verðmætasköpun Íslendinga sem þýðir að það eru aðrar atvinnugreinar sem skapa verðmætin í landinu. Þó að landbúnaðurinn myndi tvöfaldast þá færi hann bara upp í 2% af verðmætasköpuninni auk þess sem það er geigvænlegur kostnaður því samfara að framleiða þetta eina prósent. Frá þessu eina prósenti verður að draga beinar greiðslur skattgreiðenda til bænda auk þess kostnaðar sem er því samfara að að fá ekki að velja hvaðan við kaupum landbúnaðarvörur. Við erum með einn óhagkvæmasta ef ekki óhagkvæmasta landbúnað í heimi, ekki bara vegna þessa úrelta „sovét“ skipulags hans heldur einnig vegna þess hvar við erum stödd á hnettinum," bendir Sigurður Bragi á í viðtali við Viðskiptablaðið.

Tekjur af auðlindinni skipta máli

„Varðandi sjávarútveginn verður að hafa í huga að það fer ekkert á milli mála að auðlindin er mjög mikils virði en það hefur í sjálfu sér ekkert með verðmæti sjávarútvegsins sem atvinnugrein að gera. Það má deila um það hvort auðlindin sé 300, 400 eða 500 milljarða króna virði eða þaðan af meira. Það eru tekjur sem við getum haft af þessari auðlind þó að við myndum sjálf ekki veiða ugga úr sjó, við myndum þá væntanlega leigja fyrir verulegar upphæðir – í stað núll krónur núna – einhverjum erlendum aðilum og þeir myndu fá að veiða fiskinn. Svo apar hver eftir öðrum að sjávarútvegurinn sé undirstaðan, að það sé sjávarútvegurinn sem skapi allan hagnaðinn af nýtingu auðlindarinnar sem er af og frá," segir Sigurður Bragi Guðmundsson.

_____________________________

Ítarlegt viðtal við Sigurð Braga Guðmundsson er í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.