Samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR vilja 62% landsmanna fá að kjósa um nýja Icesave III samninganna. Úr því sem komið er telur InDefence hópurinn að eina leiðin til að ljúka Icesave málinu í sæmilegri sátt við þjóðina sé með því að þjóðin fái að kjósa um afdrif þess.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá InDefence hópnum þar sem Alþingi er hvatt til þess að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave III samninganna.

Í tilkynningunni segir að í ítarlegri umsögn InDefence hópsins til Alþingis um Icesave III samningana var á það bent að óbreyttir samningar fælu í sér óásættanlega fjárhagslega áhættu fyrir Ísland. Sú áhætta sé staðfest í öðrum efnahagslegum umsögnum til Alþingis.

„Í umsögninni ráðlagði InDefence hópurinn fjárlaganefnd og Alþingi að sameinast um eina breytingartillögu sem hefði minnkað fjárhagslega áhættu þjóðarinnar,“ segir í tilkynningunni.

„Krafa um þessa breytingu styðst m.a. við 11. gr. innstæðutilskipunar Evrópusambandsins. Í tillögu þessari fólst viðleitni til að ljúka Icesave málinu í meiri sátt við íslensku þjóðina. Alþingi sýnir enga viðleitni í því að berjast fyrir breytingum á samningunum og mæta þannig óásættanlegri fjárhagslegri áhættu Íslendinga.“