Ólafur Elíasson telur að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ætti að segja af sér. Þetta segir hann í viðtali við Ríkisútvarpið. Ólafur er einn talsmanna InDefence hópsins sem barðist gegn Icesave.

„Það er náttúrulega augljóst að við getum ekki haft forsætisráðherra sem að á peninga í skattaskjólum. Það er bara staða, burt séð frá öllu öðru sem að hann hefur gert, sem gengur ekki upp. Og ég fyrir mitt leyti er bara mjög hryggur yfir þessu að sjá þetta en hann verður að fara, það er alveg augljóst,“ segir Ólafur.

Ólafur segir að enn fremur sé mikilvægt að vita hvaða Íslendingar eru kröfuhafar í bankana gegnum útlend félög, og að hér sé tækifæri til að hreinsa til. „Nú verðum við að vita hverjir voru íslenskir kröfuhafar í gegnum útlend félög.“