InDefence-hópurinn vill að tryggt verði í frumvörpum til laga um stöðugleikaskatt og nauðasamninga fjármálafyrirtækja að stöðugleikaskilyrði sem eru í samningum við kröfuhafa föllnu bankanna jafngildi 39 prósenta stöðugleikaskatti.

Þetta kemur fram í umsögn hópsins við frumvörpin, en greint er frá málinu í Fréttablaðinu í dag.

Ólafur Elíasson, tónlistarmaður og einn þeirra sem rita undir umsögn hópsins, segir afstöðu InDefence hafa verið þá að þeir sem ábyrgir eru fyrir því tjóni sem þjóðfélagið hafi orðið fyrir vegna bankahrunsins, slitabúin, bæru kostnaðinn af þeim skaða, frekar en almennir borgarar landsins.

Það sem Ólafur segist staldra við er af hverju þjóðin ætti á einhverjum tímapunkti að vera tilbúin til að gefa afslátt af hagmunum samfélagsins „gagnvart einhverjum kröfuhöfum sem telja sig eiga eitthvað hér“.