*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Erlent 15. mars 2021 14:02

Indland hyggst banna rafmyntir

Stjórnvöld í Indlandi eru með lög í undirbúningi sem myndu banna rafmyntir í landinu. Vilja setja á fót eigin rafgjaldmiðil.

Ritstjórn
epa

Indland er með lagasetningu í undirbúningi sem myndi banna rafmyntir í landinu. Gera lögin m.a. ráð fyrir því að þeir sem stundi viðskipti með rafmyntir, eða svo mikið sem eigi slíkar myntir, verði sektaðir. Þetta herma heimildir Reuters, en miðillinn hefur þetta eftir ónafngreindum háttsettum embættismanni. Þykja fréttirnar nokkuð áfall fyrir milljónir fjárfesta víða um heim sem hafa fjárfest í rafmyntum.

Ef lögin hljóta gildi verður um að ræða ein ströngustu lagasetningu sem sett hefur verið til höfuðs rafmyntum. Samkvæmt lögunum yrði glæpsamlegt athæfi að gefa út, eiga, grafa eftir, stunda viðskipti með og millifæra rafmyntir. Indland yrði fyrsta stóra hagkerfi á heimsvísu til að gera rafmyntaeign ólöglega. Í Kína, þar sem þegar hefur verið bannað að grafa eftir og stunda viðskipti með rafmyntir, er þó ekki ólöglegt að eiga rafmyntir.

Ku þetta vera hluti af stefnu indverskra stjórnvalda um að setja á fót eigin opinberan rafgjaldmiðil og þá um leið banna rafmyntaviðskipti í landinu.

Þeir Indverjar sem hafa fjárfest í rafmyntum í landinu munu hafa sex mánuði til að losa sig við rafmyntaeignir sínar frá þeim degi sem lögin taka gildi. Ef fjárfestarnir verða ekki búnir að losa stöðu sína í rafmyntum að þessu hálfa ári liðnu mega þeir eiga von á sekt.  

Stikkorð: Indland rafmyntir