Brúnin er heldur farin að lyftast á helstu stálframleiðendum á Indlandi sem segja að eftirspurnin sé nú byrjuð að aukast að nýju í landinu. Forsvarsmenn fyrirtækja eins og SAIL, Tata Steel og JSW Steel segja að eftirspurn í byggingargeiranum og bílaiðnaði sé að rétta við og stáliðnaðurinn sé bara í góðum málum.

„Það er hvarvetna aukin eftirspurn eftir stáli sem er mjög jákvætt,” segir MD Sajjan Jindal aðstoðarforstjóri JSW Steel í samtali við The Economic Times á Indlandi. Fram til þessa hafa verið frekar neikvæð skilaboðfrá stáliðnaðinum sem hefur þurft að horfa fram á mjög minnkandi eftirspurn síðastliðið hálft ár eða meira. JSW Steel er stærsti einkarekni stálframleiðandi á Indlandi og segist Jindal nú gera ráð fyrir um 4-5% aukinni notkun á þessu ári.

Hluta af bættri stöðu stálfyrirtækjanna á Indlandi má eflaust rekja til þess að stórir framleiðendur á heimsvísu eins og ArcelorMittal og Posco hafa dregið úr sinni framleiðslu um 45% vegna minnkandi eftirspurnar. Minni eftirspurn leiddi líka til þess að stálverð hrapaði mjög mikið eða úr um 1.2500 dollurum tonnið niður í um 800 dollara. Indverskir stálframleiðendur urðu líka að fylgja þessu eftir með samdrætti og verðlækkunum, en þar virðist nú farið að rofa til.