Margir, meðal annars Alþjóðabankinn og Godman Sachs, höfðu spáð því að Indland myndi taka fram úr Kína en að það myndi ekki gerast fyrr en árið 2016. Nú sýna nýjar tölur, sem hagstofa Indlands hefur birt, að hagvöxturinn er þegar orðinn meiri en í Kína.

Á þriðja ársfjórðungi síðasta árs mældist hagvöxturinn 8,2% og á síðasta ársfjórðungi var hann 7,5%. Þetta er uppfærðar tölur sem eru byggðar á endurútreikningi en fyrri tölur bentu til þess að hagvöxturinn hefði verið í kringum 5,5%. Þetta kemur fram á vef The Wall Street Journal.

Heldur hefur hægt á hagvexti í Kína síðustu misseri. Á árinu 2013 var hann nálægt 8% en á tveimur síðustu ársfjórðungum síðasta árs mældist hann 7,3%.