Í gær tóku gildi stærstu breytingar á skattkerfi Indlands síðan landið varð sjálfstætt árið 1947. Munu breytingarnar gera þetta 1,3 milljarða manna land að einum markaði fyrir vörur og þjónustu í fyrsta sinn, með því að skipta út staðbundnum sköttum, tollum og gjöldum fyrir eitt virðisaukaskattkerfi sem nær til alls landsins.

Munu allar vörur héðan í frá verða settar í eitt af fimm skattþrepum nýja vöru og þjónustuskattsins, sem ná frá 0% fyrir flestar matvörur og landbúnaðarafurðir, upp í allt að 28% fyrir skartgripi og stærri raftæki. Með breytingunum munu vöruflutningar landshluta á milli ekki lengur sæta miklum töfum á héraðslandamærum þegar þurfti að fylgja sérreglum hvers héraðs, en breytingarnar hafa verið í undirbúningi í áratug.

Væntir alþjóðagjaldeyrissjóðurinn því að breytingarnar munu ýta vergri landsframleiðslu upp fyrir 8% á ný, en eftir ákvörðun Modi forsætisráðherra um að banna stærri peningaseðla landsins hrundi landsframleiðslan niður í 6,1% á síðasta ári. Hagfræðingar búast við því að umbæturnar muni bæta 0,6% við árlegan hagvöxt landsins á næstu 15 árum.

,,Þetta mun endurvekja traust fjárfesta á umbótaáætlunum Modi," segir Priyanka Kishore, hagfræðingur Oxford Econmics í frétt CNN .

Ekki er búist við því að breytingarnar muni alls staðar ganga auðveldlega, stjórnarandstæðingar fullyrða að fyrirtæki þurfi meiri tíma til að undirbúa breytingarnar auk mótmæla þeirra sem telja sig þurfa að greiða of háa skatta í nýja kerfinu. Nýttu fjölmargir neytendur tækifærið og versluðu raftæki og annað sem þeir bjuggust við að myndi hækka í verði áður en breytingarnar tóku formlega gildi.