*

sunnudagur, 25. ágúst 2019
Innlent 6. desember 2018 15:03

Indlandsflug Wow tók á loft

Fyrsta flug WOW air til Indlands hófst í dag, en flogið er í 10 tíma til höfuðborgarinnar Nýju Delí þrisvar í viku.

Ritstjórn
Skúli Mogensen, forstjóri WOW air og Hr. T. Armstrong Changsan, sendiherra Indlands á Íslandi ásamt áhöfn fyrsta flugs WOW air til Nýju Delí.
Aðsend mynd

WOW air flaug sitt fyrsta flug til Nýju Delí í dag. Flogið er þangað þrisvar sinnum í viku. Þetta er í fyrsta skipti sem Íslendingum býðst beint áætlunarflug til Indlands og er jafnframt lengsta áætlunarflug íslenskrar flugsögu.

Delí er önnur stærsta borg Indlands á eftir Mumbai og þar má finna höfuðborg Indlands, Nýju Delí. Í nágrenni er hægt að sjá ýmsa sögufræga staði á borð við Taj Mahal sem jafnan er talið eitt fegursta mannvirki á Indlandi að því er segir í fréttatilkynningu um málið. Þá eru þar haldnar ýmsar hátíðir á borð við Diwali (hátíð ljósanna) og Holi (hátíð lita).

„Við höfum fundið fyrir miklum áhuga á ferðum á góðum kjörum til og frá Indlands enda land sem býr yfir ríkri menningu og sögu,“ segir Skúli Mogensen forstjóri og eigandi WOW air. „Með því að tengja Indland við leiðarkerfi WOW air til Norður Ameríku þá mun staða Íslands sem tengistöð styrkjast enn frekar.“

Flogið tók á loft frá Keflavíkurflugvelli í hádeginu í dag, og er áætluð lending tíu tímum síðar, klukkan 3 í nótt að staðartíma á Indira Gandhi flugvellinum í Nýju Delí. Upphaflega var ætlunin að fljúga fimm ferðir í viku að því er Túristi segir frá, en þeim var fækkað tímabundið niður í þrjár ferðir á viku.

Salan virðist ganga vel því ódýrustu miðarnir í brottfarir fram að jólum kosta 165 þúsund krónur frá Keflavíkurflugvelli. Hins vegar er heimferðin einunigs einn fimmti af því, og er farmiðaverðið lægra frá og með jólum.