Áskorendabankinn indó og gjafabréfafyrirtækið YAY hafa verið valin til að að taka þátt í Lighthouse verkefni Mastercard. Er þetta í fyrsta sinn sem íslensk fyrirtæki komast inn í verkefnið.

Lighthouse er hluti af stefnu Mastercard til að virkja tengslanet á milli banka, fjártæknifyrirtækja og Mastercard og efla nýsköpun í fjártæknigeiranum.

„Það er mikill heiður að vera valin til þátttöku í Mastercard Lighthouse. Við hjá indó erum alltaf að leita að tækifærum til að stækka tengslanetið okkar og þetta verkefni er einmitt frábær leið til þess. Nú þegar höfum við verið sett í samband við nokkra reynslumikla og áhugaverða aðila sem við bíðum spennt eftir að fá að tala við og læra af,“ er haft eftir Hildi Hjartardóttur, markaðsstjóra indó, í fréttatilkynningu.

Alls voru 15 fyrirtæki frá sex löndum valin til þátttöku en þau fyrirtæki sem skara mest fram úr fá tækifæri til að taka þátt í lokadegi Lighthouse þar sem þeim gefst tækifæri til að kynna fyrirtækið sitt fyrir mögulegum samstarfsaðilum og fjárfestum. Í lokin verður eitt fyrirtækið valið sem sigurvegari Mastercard Lighthouse og fær það fyrirtæki samstarfssamning við m.a. Mastercard. Verkefnið er unnið í þremur lotum og mun standa yfir í um 4 mánuði eða fram í júní 2021.