Fjártæknifyrirtækið Indó vinnur nú að því að fá starfsleyfi fyrir viðskiptabanka og bjóða íslenskum neytendum upp á innlán á veltureikninga. Fréttablaðið greinir frá þessu og ræddi við stofnendur Indó, Hauk Skúlason og Tryggva Björn Davíðsson. Vonir þeirra standa til þess að starfsemin geti hafist á næsta ári, en fyrirtækið hefur nú þegar lokið við tveimur umferðum af fjármögnun og hyggst ljúka þeirri síðustu þegar bankaleyfið verði í höfn.

Sérstaða reikninganna felst í því að þeir verða að fullu tryggðir með ríkisskuldabréfum og innistæðum í Seðlabanka Íslands.

„Hugmyndin snýst um valdeflingu viðskiptavina. Þú færð launin þín inn á bankareikning og átt að hafa heilmikið um það að segja hvernig þeim er ráðstafað. Þá ætti til dæmis ekki að nota hann til að fjármagna eitthvað sem þér er á móti skapi,“ er haft eftir Hauki Skúlasyni í Fréttablaðinu, en ólíkt hefðbundnum bönkum verða innstæður Indó ekki lánaðar út nema til ríkisins.

Þetta er að sögn Hauks algert nýnæmi og verður í fyrsta skipti sem innlánseigendur geti treyst því að innlán þeirra séu algerlega örugg óháð fjárhæð. Þar að auki munu þeir vita nákvæmlega hvar peningar þeirra eru á hverjum tíma.

„Við höfðum báðir fundið fyrir togstreitunni sem er á milli deilda í bönkum og þeim áskorunum sem fylgja aukinni samkeppni, tæknibreytingum og regluverkinu. Við settumst niður til að greina bankastarfsemina eins og hún leggur sig og veltum fyrir okkur hvort hægt væri að vera banki án þess að bjóða upp á alla þá þjónustu sem bankar í dag bjóða upp á með öllum þeim kostnaði sem því fylgir,“ segir Tryggvi Björn í viðtali Fréttablaðsins.

Tryggvi Björn og Haukur koma báðir úr fjármálageiranum. Haukur starfaði í tíu ár hjá Íslandsbanka, m.a. sem forstöðumaður framtaksfjárfestinga og forstöðumaður greiningar og stefnumótunar á viðskiptabankasviði. Tryggvi Björn var framkvæmdastjóri Markaða hjá Íslandsbanka þar til 2017 en starfaði áður hjá Barclays Capital í London.

Starfsmenn indó eru sex talsins að stofnendunum meðtöldum og vinna m.a. að hugbúnaðarþróun fyrirtækisins. „Stærsta áskorunin, og sú sem hefur verið skemmtilegast að yfirstíga, var sú að hlusta ekki á þá sem sögðu að þetta væri ekki hægt. En þetta er víst hægt, við erum að framkvæma hugmyndina og það hefur skipt sköpum að vera hluti af teymi sem hefur sama hugarfar.

Í bankastarfsemi þarf þekking á ólíkum sviðum að koma saman. Það þarf þekkingu á regluumhverfinu, fjármálamörkuðum, kerfisinnviðum og markaðssetningu svo dæmi séu tekin,“ segir Tryggvi í viðtali við Fréttablaðið.