Orkumálaráðherra Indónesíu, Purnomo Yusgiantoro, segir að landið muni hætta í OPEC samtökunum á næstunni. Indónesía hefur verið meðlimur í OPEC síðan 1962, en hefur haft æ minni áhrif innan samtakanna eftir því sem olíuframleiðsla landsins hefur dregist saman, vegna skorts á fjárfestingum og vegna þess að ekki hafa fundist neinar nýjar stórar olíulindir. Olíuneysla landsins er nú meiri en olíuframleiðsla þess.

Stjórnvöld í Indónesíu neyddust í síðustu viku til að hækka olíuverð í landinu um tæp 30%, en þau hafa átt erfitt með að halda þeirri stefnu sinni áfram að flytja inn olíu og selja hana svo á niðurgreiddu verði.

Yusgiantoro sagði ástæðu þess að Indónesía gangi úr OPEC samtökunum sé sú að samtökin geri ekki nóg til að lækka olíuverð. Þar sem Indónesía notar meiri olíu en landið framleiðir er það hagur landsins að olíuverð sé lágt, á meðan það er öðrum OPEC ríkjum til hagsbóta að olíuverð haldist hátt. „Það er ekki hægt að kenna spákaupmönnum alfarið um hækkanir olíuverðs, vegna þess að ef framboð frá OPEC ríkjunum myndi aukast verulega myndi olíuverð lækka“ hefur Reuters eftir greinanda hjá rannsóknarmiðstöð orkuhagfræði (e. Centre for Petroleum and Energy Economics Studies) í Jakarta.