Indriði H. Þorláksson, ráðgjafi í fjármálaráðuneytinu, hefur unnið 1.178 stundir frá 1. apríl 2010 og fengið greitt samtals 4.845.387 kr.

Þetta kemur fram í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins, þar sem meðal annars var spurt hversu marga tíma Indriði hafi unnið skv. sérstökum starfssamningi og hversu mikið hann hefði fengið greitt á tímabilinu. Viðskiptablaðið hafði áður sent ráðuneytinu fyrirspurn um starfskjör og starfssamning Indriða sem blaðið fékk fljótt svör við. Í annarri fyrirspurn var meðal annars spurt um ofangreint atriði.

Samkvæmt þessum tölum er tímakaup Indriða um 4.113 kr. Um er að ræða 22 mánuði til dagsins í dag en svar ráðuneytisins barst nú undir mánaðamótin janúar/febrúar. Það þýðir að laun Indriða nema um 220 þús.kr. á mánuði að meðaltali.

Á sama tímabili hefur hann unnið 53,5 klst. í mánuði að meðaltali, eða 2,4 klst. á dag sé miðað við 22 vinnudaga í mánuði að meðaltali.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.