Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi Ríkisskattstjóri fjallar um sölu á hlutabréfum í símanum í pistli sem birtist á vefnum Herðubreið í morgun. Nýlega voru hlutabréf í Símanum skráð á markað en tilteknir aðilar fengu að kaupa fyrir útboðið á lægra verði.

Indriði segir í pistlinum að mismunurinn á kaupverði og markaðsverði hlutabréfanna sé gjöf að verðmæti 720 m.kr. og skattskyldur sem tekjur.

Indriði segir:

„Það eru ekki bara vildarvinir Arions sem geta glaðst yfir góðri gjöf. Aumur ríkissjóður og fjárvana sveitarsjóðir mega eiga von á hressingu því ekki verður betur séð en að þessi gjöf, þ.e. mismunurinn á kaupverði og markaðsverði hlutabréfanna, sé tekjur hjá kaupendunum, sem skattleggja eigi sem almennar tekjur. Tekjuskattur af þeim reiknast væntanlega í flestum tilvikum eftir hæsta skattþrepi. Má því ætla að tekjur ríkis og sveitarfélaga af þessum gjöfum verði um 300 m.kr. Þær ættu að skila sér á næstunni því hinn örláti Arion skilar væntanlega staðgreiðslu af gjöfum sínum við fyrsta tækifæri eins og lög gera ráð fyrir.“