Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra og einn samningsmanna í íslensku Icesave-nefndinni, segist hafa rætt niðurstöðu samningsins við formann sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þegar hann var hér síðast. Að sögn Indriða fengust þau skilaboð frá sjóðnum að hann teldi niðurstöðuna vel viðunandi fyrir Íslendinga.

Indriði benti á að þessi skuld var ekki óþekkt í fjármálaheiminum og vissulega hafi hún verið komin inn í mat manna á stöðunni. Hann sagði að sömuleiðis hefði AGS reiknað með þessum skuldum í sínum útreikningum.

Indriði segist einnig hafa heyrt það frá alþjóðlegum matsfyrirtækjum að þau telja niðurstöðuna ekki neikvæða fyrir Íslendinga. ,,Að því leyti sem við höfum heyrt frá matsfyrirtækjum, þó það hafi ekki verið beinlínis í sambandi við þetta, er að þeir telja þetta ekki neikvætt. Þeir telja allavega það að eyða óvissunni um þetta bæti stöðuna.”

Þá sagðist Indriði ekki sjá fyrir sér hvernig Icesave-niðurstaðan ætti að hafa neikvæð áhrif á þróun krónunnar. ,,Maður sér ekki í hendi sér hvernig þetta ætti að hafa neikvæð áhrif á gjaldeyrisþróunina því í sjálfu sér þýðir þetta að ekki verði gjaldeyrisútstreymi næstu sjö árin vegna þessa þar sem eignir Landsbankans eru að langmestu leyti í erlendri mynt."