Íslenska fyrirtækið Industria hefur gert samning við Cork County Council á Írlandi um ráðgjöf og verkumsjón við breiðbandsvæðingu um 325 þúsund íbúa í fimmtán bæjum í héraðinu, segir í tilkynningu.

Verkefnið var boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu og heildarkostnaður við verkið er um 1,5 milljarðar króna. Áætlaður verktími er 18 mánuði.

?Industria byggir hér að hluta til á reynslu sinni af sambærilegum verkefnum á Norðurlöndunum, en einnig áralangri reynslu teymisins af vinnu á íslenska, danska, írska og breska fjarskiptamarkaðinum," segir Guðjón Már Guðjónsson, forstjóri Industria.

Fyrri áfangi verkefnisins felst í hönnun á dreifineti ljósleiðara milli bæjanna, yfirumsjón með jarðvinnuútboði og vali á verktökum í lagningu ljósleiðara og uppsetningu þráðlausra móttakara og mastra.

Seinni áfanginn felst í verkefnastjórnun, eftirliti með framkvæmdum, skjölun og gæðastjórnun á lagningu ljósleiðaranetsins.

?Samningur okkar við Cork County Council er sá stærsti sinnar tegundar sem við höfum gert á Írlandi, bæði sökum umfangs og erfiðs landslags. Cork er stærsta hérað á Írlandi, um 7.459 ferkílómetrar að flatarmáli, sem samsvarar 11% af landinu í heild sinni," segir Seamus Given, deildarstjóri hjá Industria.

Þetta er þriðji samningurinn sem fyrirtækið gerir á Írlandi. Áður hafði Industria gert samning við sveitastjórnir Galway- og Meath-héraða.

Industria hefur umsjón með breiðbandsvæðingu 65% íbúa héraðanna, eða alls um 780.000 íbúa.

Heildarkostnaður verkefnanna þriggja hljóðar upp á um 3 milljarða íslenskra króna.