Íslenska fyrirtækið Industria hefur gert samning við Galway County Council á Írlandi um ráðgjöf við breiðbandsvæðingu sem ná mun til 120 þúsund íbúa í fimm bæjum héraðinu. Ráðgjafarverkefnið var boðið út á evrópska efnahagssvæðinu, og varð Industria hlutskarpast í útboðinu.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að fyrra stig ráðgjafarverkefnisins felst í hönnun á dreifineti ljósleiðara milli bæjanna, yfirumsjón með jarðvinnuútboði og vali á verktökum í lagningu ljósleiðara. Seinna stigið felst í verkefnastjórnun, eftirliti með framkvæmdum, skjölun og gæðastjórnun á lagningu ljósleiðaranetsins.

Af hálfu Industria mun ráðgjafararmur Industria á Írlandi annast verkefnið. Deild þessi var sett á laggirnar fyrr á árinu í framhaldi af kaupum Industria á leiðandi fyrirtæki á sviði fjarskiptaráðgjafar á Írlandi, EAP Consulting. Seamus Given, deildarstjóri hjá Industria Professional Services mun leiða verkefnið.

Seamus segir Industria hæstánægða með árangurinn í útboðinu. ?Industria byggir hér að hluta til á reynslu sinni af sambærilegum ráðgjafarverkefnum á Norðurlöndunum, en einnig áratugalangri reynslu teymisins af ráðgöf á írska og breska fjarskiptamarkaðinum," segir Seamus Given. Seamus segir verkefnið í Galway aðeins vera fyrsta skref í breiðbandsvæðingu í hinum dreifðari byggðum Írlands. Alls standi til að breiðbandsvæða um 80 bæi í næsta áfanga, og Industria stefni að því taka þátt í því verkefni einnig.

Industria er leiðandi fyrirtæki um heildarlausnir á breiðbandssviði, og spannar allt sviðið frá hönnun og uppbyggingu breiðbandsneta yfir til rekstrar þeirra og gangsetningar stafrænna þjónustuþátta. Helstu viðskiptavinir Industria eru síma- og veitufyrirtæki sem hyggjast byggja upp næstu kynslóðar fjarskiptanet. Industria býður lausnir á sviði sjónvarps og kvikmynda yfir IP-net, stafræna símaþjónustu og ýmsa fleiri þjónustuþætti.