Íslenska fyrirtækið Industria hlaut í dag Red Herring Europe 100-verðlaunin, sem ár hvert er útdeilt af samnefndu viðskiptatímariti, segir í fréttatilkynningu. Þar segir að heimsþekkt fyrirtæki á borð við Google, eBay og Skype eru meðal þeirra sem hafa hampað síkum titli í gegnum tíðina.

Industria hlýtur verðlaunin vegna breiðbandslausna fyrirtækisins, og fyrir uppbyggingu heildarlausna á fjarskipta- og afþreyingarsviði fyrir viðskiptavini sína.

?Það er mikill heiður fyrir okkur að fá þessi verðlaun, og þetta staðfestir stöðu Industria sem eins af fremstu þjónustufyrirtækjum í Evrópu á sviði næstu kynslóðar fjarskipta og afþreyingar," sagði Guðjón Már Guðjónsson forstjóri Industria við verðlaunaafhendinguna í dag.

?Tæknilausnir okkar og úrvalsmannskapur með mikla reynslu af uppbyggingu fjarskiptafyrirtækja víða um heim hefur gert okkur kleift að leysa flókin verkefni hraðar og á lægra verði en hingað til, og verðlaun Red Herring nú bera framsýni Industria á hinum ört vaxandi markaði fjarskipta og afþreyingar glöggt vitni."

Lausnir Industria eru sérstaklega ætlaðar fjárfestum eða fjarskiptafyrirtækjum sem hyggjast byggja upp næstu kynslóðar fjarskiptanet og afþreyingarþjónustu. Heildarlausn frá Industria er þegar í notkun hjá afþreyingar- og fjarskiptafyrirtækinu Magnet Networks á Írlandi sem miðlar sjónvarpsefni, kvikmyndum og annarri afþreyingu gegnum dreifinet sem nær til allt að 700,000 notenda í fimm stærstu borgum landsins.

Í ræðu sinni við verðlaunaafhendingu í París í dag sagði Joel Dreyfuss, yfirritstjóri tímaritsins meðal annars: ?Eins og listinn okkar sýnir eru framúrskarandi fyrirtæki ennþá að líta dagsins ljós þrátt fyrir ýmsar hindranir á markaðnum síðustu árin, og Industria er eitt þeirra."

Starfsmenn Industria eru um 110 talsins í 5 löndum, og hefur fyrirtækið á að skipa reynslumiklu fólki sem m.a. hefur reynslu af uppbyggingu íslenskra símafyrirtækja, auk fjölmargra erlendra afþreyingar- og fjarskiptafyrirtækja.