Hugmyndir Indverja um að smíða eigin farþegaþotu fengu byr undir báða vængi í gær þegar ríkisstjórn landsins samþykkti hönnun á 70 - 100 sæta vél.

Forsætisráðherra landsins, Manmohan Singh, sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar ákvörðunar. Þar sagði að Indverjar þyrftu að koma að smíði farþegaþota í ljósi vaxtar flugiðnaðarins í landinu.

Verkefnið er á forræði stjórnvalda í Delhi en ekki er útilokað að samvinna verði um smíðina við einkafyrirtæki.

Ekki er ljóst hver kostnaðurinn er eða hvort verkefnið er liður í smíði stærri farþegaþota.