Indversk stjórnvöld hafa ákveðið að hætta við að leggja á söluskatt á skartgripi, sem seldir eru innan Indlands. Má ætla að þetta hafi áhrif á eftirspurn eftir gulli á Indlandi og þar með á heimsmarkaðsverð á gulli. Indland er með stærstu gullmörkuðum í heimi.

Skartgripa- og gullsmiðir á Indlandi fóru í þriggja vikna verkfall í mars eftir að stjórnvöld kynntu áform sín um að tvöfalda innflutningsgjöld á gulli og leggja á innanríkisverslun með gull 1% söluskatt. Í frétt Bloomberg segir að nú þegar gullsmiðirnir eru komnir af stað aftur og fallið hefur verið frá söluskattinum ætti eftirspurn að aukast bæði innan Indlands og á heimsmarkaðnum. Afleiðingin ætti því að öllu öðru óbreyttu að vera hækkandi heimsmarkaðsverð á gulli.