Svokallað spot-verð á gulli fór í  1.066,15 dollara únsan í morgun, eða rétt undir metverðinu frá síðasta mánuði sem var 1.070,40 dollarar á únsu. Að því er fram kemur á vefsíðu Financial Times í morgun var ástæðan auknar væntingar markaðarins í kjölfar þess að Indverjar samþykktu að kaupa 200 tonn af gullstöngum af Alþjóða gjaldeyrissjóðnum (AGS - IMF).

Indverjar keyptu um helming þess gulls sem AGS ætlar að losa sig við til að styrkja lausafjárstöðuna. Verðið var 6,7 milljarða dollara. Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri AGS fagnaði þessari sölu í morgun.

Er þetta sagt gefa auknar vísbendingar um eftirspurnaraukningu eftir gulli í þróunarlöndunum í kjölfar efnahagshrunsins á heimsvísu. Er Indland fyrsta þjóðin til að kaupa gull af AGS síðan sjóðurinn auglýsti 403,3 tonn af gulli til sölu í september. Ráðgerir AGS að selja þau 203,3 tonn sem eftir eru annaðhvort til annarra seðlabanka eða á opnum markaði. Talið er líklegt öflugir sjóðir í Mið-Austurlöndum séu líklegir kaupendur á gullinu.

Ákvörðun Indverja kemur í kjölfar þess að Kínverjar tilkynntu fyrr á þessu ári að þeir hefðu hægt og hljótt nærri tvöfaldað gullforða sinn og væru nú fimmti stærsti gulleigandi í heimi. Yfirvöld í Beijing sögðu í apríl að seðlabanki landsins hefði aukið gullforða sinn úr 600 tonnum árið 2003 í 1.054 tonn.

Verð á gullstöngum hefur hækkað um 21% frá því í janúar og segir FT að fjárfestar hafi sóst eftir öryggi í gullfjárfestingum samfara veikingu á Bandaríkjadollar.