Líftæknifyrirtæki og erfðavísindamenn á Indlandi eru í vaxandi mæli að gera sér grein fyrir því að í landinu er að finna erfðafræðilega einsleita hópa sem henta ákaflega vel til erfðafræði- og líftæknirannsókna. Í indverska vefmiðlinum Chennai News kemur fram að Indverjar vilji leika eftir rannsóknarmódel Íslenskrar erfðagreiningar og telji sig geta náð betri árangri eins og kemur fram í frétt í Viðskiptablaðinu í dag.

Haft er eftir Lalji Singh, framkvæmdastjóra Rannsóknarstöðvar í frumu- og sameindafræðum í Chennai (CCMB) að ef rannsóknir á 275.000 Íslendingum geti leitt til nýrrar þekkingar á sjúkdómum og jafnvel nýrra lyfja sé ljóst að enn meiri möguleikar séu fyrir hendi með sambærilegum rannsóknum á Indlandi.

Á Indlandi eru 4.635 vel skilgreindir "erfðahópar" sem hafa um langan aldur verið vel aðgreindir frá öðrum Indverjum og lítt blandast þeim. Þar af eru 532 þjóðflokkar. Þetta þýðir, að sögn indverskra vísindamanna, að Indland er mun stærri og hentrugri "rannsnóknarstofa" en Ísland.

Rannsóknir á því hvernig ýmsir sjúkdómar herja -- eða herja ekki -- á tiltekna þjóðflokka eða erfðahópa eru þegar hafnar. Sem kunnugt er auðveldar það slíkar rannsóknir til muna að erfðamengi stórra hópa fólks sé svipað en ekki fjölbreytilegt eins og til dæmis í Bandaríkjunum.

CCMB hefur safnað yfir 9.000 DNA-sýnum úr um það bil 130 erfðahópum vítt og breitt um Indland.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.