Finnski farsímaframleiðandinn Nokia á yfir höfði sér allt að 1,1 milljarða dala skattasekt á Indlandi. Málið snerist upphaflega um færslu fjármuna frá dótturfélagi Nokia á Indlandi til móðurfélagsins í Finnlandi sem leiddi til húsleitar á skrifstofum fyrirtækisins í Chennai fyrr á þessu ári. Breska dagblaðið Financial Times segir málið hins vegar ekki líklegt til að trufla yfirtöku Microsoft á Nokia.

Málið tengist rannsókn yfirvalda á Indlandi á færslu fjármuna frá fjölda stórfyrirtækja sem er með starfsemi þar í landi, s.s. Vodafone og IBM. Financial Times segir rannsóknina vera þyrni í augum erlendra fjárfesta og geta valdið því að þeir horfi annað í framtíðinni.