Prentsmiðjufyrirtækið Infopress Group, sem er í eigu fjárfestingarfélagsins Kvosar, hefur opnað nýja 70.000 fermetra prentsmiðju í Ungverjalandi.

Að sögn Birgis Jónssonar, framkvæmdastjóra Infopress, er fjárfestingakostnaður vegna verksmiðjunnar um 25 milljónir evra eða ríflega þrír milljarðar króna. Er Infopress nú með níu prentsmiðjur í rekstri í Austur-Evrópu.

Að sögn Birgis er ástæðan fyrir því að ákveðið var að ráðst í fjárfestinguna er sú að prentmarkaðurinn í Ungverjalandi er tvisvar sinnum stærri en sá í Rúmeníu en þar hefur Infopress komið sér vel fyrir og er með 80% markaðshlutdeild á tímaritamarkaði.

Verulegur hluti starfseminnar þar er prentþjónusta fyrir markaðinn í Ungverjalandi en þar í landi er félagið nú í 3. til 4. sæti yfir. Sömuleiðis er félagið með mikla starfsemi í Búlgaríu þar sem það er með um 60% markaðshlutdeild.

Vinna við verksmiðjuna hófst í lok árs 2007 en hún er reist í bænum Vac, nálægt Búdapest. Að sögn Birgis er verksmiðjan búin öllum nýjustu tækjum og er gert ráð fyrir að hún muni annast eftirspurn á þessum hraðvaxandi markaði næstu árin. Gert er ráð fyrir að fjárfestingar Infopress muni nema 35 til 40 milljónum evra á þessu ári.

Velta Infopress nam 80 milljónum evra á árinu 2007 og segir Birgir að gert sé ráð fyrir að hún muni nema 110 milljónum evra á þessu ári.

Kvos er eignarhalds- og fjárfestingarfélag í prentiðnaði og skyldum rekstri. Kvos á 10 dótturfélög á Íslandi, í Bandaríkjunum og Evrópu, með samtals um 1.300 starfsmenn. Velta ársins 2007 nam 12 milljörðum króna. Í janúar síðastliðnum var ákveðið að stofna dótturfyrirtæki í Færeyjum til að halda utan um sölustarfsemi Kassagerðarinnar þar.