Framsóknarmenn samþykktu á flokksþingi sínu rétt í þessu ályktun þess efnis að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið. Fullveldi og óskorað forræði Íslendinga yfir auðlindum þjóðarinnar yrði grundvallarkrafa í þeim viðræðum.

Mikill meirihluti fundarmanna samþykkti ályktunina.

Áður hafði tillaga, um að flokksþingið legðist gegn öllum hugmyndum um að Íslandi gengi í ESB, verið felld með þorra atkvæða.

Þegar þetta er skrifað er enn verið að greiða atkvæði um einstakar breytingartillögur við heildarályktunina um ESB.

Brúarsmíð til að sætta sjónarmið

Drög að ályktuninni um aðild að ESB voru lögð fram á flokksþinginu, sem hófst í morgun, og hafa umræður um drögin staðið yfir í allan dag.

Fram kom meðal annars í umræðunum að drögin væru brúarsmíð milli ólíkra sjónarmiða í flokknum um Evrópumál.

Gunnar Bragi Sveinsson, sem býður sig fram til ritara flokksins, orðaði það sem svo að hann hefði haft áhyggjur af því að flokkurinn myndi klofna í málinu. Með þessari niðurstöðu mætti hins vegar koma í veg fyrir það.

Þá kom fram í máli ýmissa ræðumanna að þótt þeir væru í andstæðingar Evrópusambandsins myndu þeir greiða ályktuninni atkvæði sitt því þjóðin þyrfti að fá úr því skorið hvað væri í boði hjá ESB og hvað ekki.

Framsóknarmenn standi saman

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem býður sig fram til formennsku, sagði að það skipti öllu máli að flokksmenn næðu sátt. „Við eigum að standa saman og við eigum að þora að vera Framsóknarflokkurinn,“ sagði hann og vísaði meðal annars til þess að verja þyrfti landbúnaðinn. Framsóknarflokkurinn ætti að vera stoltur af uppruna sínum og þar með tengingunni við landbúnaðinn.

Í ályktun framsóknarmanna eru talin upp nokkur skilyrði fyrir aðild. Til að mynda að í aðildarsamningi verði skýr og einhliða úrsagnarréttur. Í samningnum verði einnig staðfest að Íslendingar einir hafa veiðirétt innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Þá verði viðurkennt að íslenskur landbúnaður sé heimskautalandbúnaður.

Ályktunina má finna í heild sinni hér: www.framsokn.is .

Innan við tuttugu fundarmenn voru á móti heildarályktuninni um ESB en atkvæðagreiðslan um hana, þ.e. ályktunina í heild, fór fram um kl. 19.30.

(Fréttin var uppfærð kl. 19.39).