Hollenski bankinn og tryggingafyrirtækið ING opinberaði í gær að hann hafi keypt tyrkneska bankann Oyak og hyggist með kaupunum auka markaðshlutdeild bankans með því að opna fleiri útibú, bæta markaðsmál og auka áherslu á netbankaþjónustu. Hollenski bankinn hefur verið í eldlínunni undanfarin misseri en forráðamenn hans gengu frá sameiningaviðræðum við ABN Amro í fyrra.

ING mun kaupa allt hlutafé bankans og verða kaupin fjármögnuð með eigin fé bankans. Haft er eftir Michel Tilmant, aðalframkvæmdastjóra ING, í Financial Times að kaupin séu í takt við stefnu bankans um að leggja áherslu á vöxt með áherslu á netbankaþjónustu, lífeyrisstarfsemi og starfsemi á nýmörkuðum. Tilmant segir jafnfram að nú sé hárrétti tíminn til þess að koma sér fyrir á tyrkneska markaðinum og réttlætir verðlagninguna á kaupunum - V/H hlutfall hennar er 26,6 - með því að vísa í vaxtarmöguleika tyrkneska hagkerfisins. Hagvöxtur hefur verið mikill í Tyrklandi undanfarin ár og mældist meðal annars 6,1% á síðasta ári. Oyak bankinn var stofnaður árið 1984 og er meðal tíu stærstu viðskiptabanka landsins. Bankinn er með ríflega 1,2 milljónir viðskiptavina og um tíu þúsund lítil og meðalstór fyrirtæki í viðskiptum. Undanfarið hefur áhersla bankans tekið breytingum og á síðasta ári fjárfesti bankinn töluvert í einkavæðingu tyrkneskra stjórnvalda á stáliðjuverum.

Fram kemur í frétt Dow-Jones Newswires-fréttastofunar að Oyak bankinn verði sameinaður í viðskiptabankastarfsemi ING og muni starfa á undir nafni hollenska bankans. Bankar og fjármálastofnanir á Niðurlöndum hafa í auknu mæli horft til Austur-Evrópu og Tyrklands í leit að vexti utan heimamarkaðar og hafa meðal annars Dexia og Fortis fjárfest í tyrkneskum fjármálafyrirtækjum á undanförnum tveim árum.