Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sem aldrei hefur notið meiri stuðnings í skoðanakönnunum eins og nú líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um , segist sátt við að vera kölluð Popúlisti.

„Ég hef ákveðið að taka jákvæða pólinn í hæðina og segja, ja popúlisti er bara svona einhver svakalega vinsæll. En ég veit náttúrulega hvað hugtakið er útbreitt fyrir. Ég er sennilega svona Marine Le Pen týpa sem er verið að mála mig af þeim sem munu hvort sem er aldrei kjósa flokkinn,“ segir Inga Sæland formaður sem jafnframt sagðist óska Le Pen og þjóðfylkingu hennar alls hins besta í kvöldfréttum RÚV .

„Af okkur stafar ógn vegna þess að við erum boðberi breytinga. Við erum einlæg og heiðarleg og við vinnum af hugsjón og við ætlum að halda því áfram og við erum bara sátt við að vera popúlistar. Ég ætla að segja að það þýði bara það að vera vinsæll í dag.“

Mettun húsnæðismarkaðar ekki stórt og dýrt kosningaloforð

Inga segist slá á gagnrýni á að flokkurinn dragi upp dökka mynd af samfélaginu og bjóði stór og dýr kosningaloforð.

„Það voru tíu þúsund heimili sem voru tekin af fjölskyldum eftir hrun. Þessar fjölskyldur hafa ekki ennþá margar hverjar fengið úrbót sinna mála og eiga enn um sárt að binda,“ segir Inga sem segir lausnina felast í að lífeyrissjóðir, borgaryfirvöld og stjórnvöld geri átak í húsbyggingum.

„við viljum bara gjörsamlega metta markaðinn. Við viljum bara byggja eins og þörfin er.“ Einnig virðist formaðurinn telja fátækt viðvarandi vandamál á Íslandi en eins og Vísindavefurinn fjallar um þá er afstæð fátækt skilgreind sem þeir sem hafa minna en helming af miðgildi tekna landa sinna, sem er skilgreining sem til að mynda ESB notar þó ekki sé ljóst hvort Inga sé sammála skilgreiningu bandalagsins.

„Það er hér enn um þriðjungur þjóðarinnar sem er við og undir fátækramörkum þrátt fyrir útgefin meðallaun sem velferðarráðherra boðaði að væru 719 þúsund krónur,“ er þó haft eftir Ingu í frétt RÚV án frekari skýringa. Flokkurinn, sem fékk 3,5% fylgi í síðustu kosningum, hyggst bjóða fram í borginni næsta vor.

Fylgi flokksins samkvæmt könnuninni skiptist þannig eftir kjördæmum:

  • Reykjavíkurkjördæmi norður - 9.3%
  • Reykjavíkurkjördæmi suður - 5.6%
  • Suðvesturkjördæmi - 9.5%
  • Norðvesturkjördæmi - 6.8%
  • Norðausturkjördæmi - 8.8%
  • Suðurkjördæmi - 9.4%