Inga Steinunn Björgvinsdóttir hefur verið ráðinn sölustjóri fyrir skýja- og öryggislausnir hjá upplýsingatæknifyrirtækinu Origo. Hlutverk Ingu verður að efla og samræma sölustarf og auka ráðgjöf til viðskiptavina. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Inga Steinunn hefur undanfarin níu ár starfað sem markaðsstjóri, ráðgjafi og stundakennari hjá Promennt. Þá hefur hún sinnt stundakennslu við Háskólann í Reykjavík og verið leiðbeinandi við lokaverkefni.

Inga Steinunn útskrifaðist með meistaragráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands árið 2012. Hún hafði áður lokið BA gráðu í stjórnun með áherslu á markaðsfræði frá DeMontfort University og Niels Brock í Kaupmannahöfn árið 2004.

Hún er einn af stofnendum og fyrstu stjórnarmeðlimunum VERTOnet, hagsmunasamtaka kvenna í upplýsingatækni. Inga Steinunn hefur einnig verið í stjórn LLPA, sem eru alþjóðleg samtök leiðandi fræðslufyrirtækja í upplýsingatækni, frá 2015.

Inga Steinunn er gift Hjörleifi Harðarsyni sjúkraskósmiði hjá Össuri og eiga þau tvö börn. Utan vinnutíma er nóg að gera hjá Ingu Steinunni en mikill tími fer í samveru með fólkinu hennar, líkamsrækt og sjálfboðaliðastörf í íþróttahreyfingunni.