Orkufrumvarp iðnaðarráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, er enn til meðferðar í þingflokki sjálfstæðismanna. Þingflokkur Samfylkingarinnar afgreiddi frumvarpið fyrr í mánuðinum. Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að um stórt mál sé að ræða og því vilji þingflokkurinn fara vel yfir það.

Hún segir einnig að utanlandsferðir og aðrar fjarvistir þingmanna hafi tafið afgreiðslu frumvarpsins. Þingmenn flokksins í iðnaðarnefnd þingsins eru með málið á sinni könnu. "Þetta er stórt mál og því eðlilegt að það sé skoðað vel af þeim þingmönnum sem bera ábyrgð á því," segir hún.

Í orkufrumvarpinu er, eins og fram hefur komið í Viðskiptablaðinu, kveðið á um að ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum sem alfarið eru í þeirra eigu verði óheimilt að framselja beint eða óbeint og með varanlegum hætti vatns- og jarðhitaréttindi. Einungis verður heimilt, samkvæmt frumvarpinu, að veita tímabundinn afnotarétt að slíkum réttindum til allt að fjörutíu ára í senn. Þá er lagt til að forsætisráðherra verði falið að semja um endurgjald fyrir afnotarétt í eigu ríkisins, en hann fer þegar með það umboð varðandi nýtingu réttinda í þjóðlendum.

Frumvarpið var samþykkt í ríkisstjórn í byrjun mánaðarins og í kjölfarið sent þingflokkum stjórnarflokkanna. Arnbjörg vildi í samtali við Viðskiptablaðið í kvöld ekkert segja til um það hvort sjálfstæðismenn myndu gera breytingar á frumvarpinu.