þingfundi á Alþingi hefur verið frestað í tvígang vegna óláta á þingpöllum. Þegar fundur hófst um þrjú leytið kölluðu gestir á þingpöllum yfir salinn: Drullið ykkur út.

Forseti þingsins frestaði þá þingfundi um nokkrar mínútur. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins hefur lögreglan verið kölluð til.

Fundi var síðan aftur frestað til tuttugu mínútur í fjögur.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, var í miðri þingræðu þegar frammíköll gestanna á þingpöllunum hófust í dag.

Hún var að spyrja fjármálaráðherra út í það hvort hann hafi haft vitneskju um tilboð sem breska fjármálaeftirlitið á að hafa lagt fram, um að færa Icesave-reikninga Landsbankans undir breska lögsögu.

Þingmönnum brugðið

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins var það hópur grímuklæddra ungmenna sem gerði hróp að þingheimi. Ungmennin fengust ekki til að yfirgefa þingpallana með góðu móti og þurfti lögreglan að beita valdi.

Var þingmönnum verulega brugðið vegna ólátanna.

Þingfundi hefur í þriðja sinn verið frestað og þá til kl. 16.

Þingfundur hófst kl. 16.13 en þá var fyrirspurn Sivjar tekin út af dagskrá þingsins. Nú fara fram umræður um stjórnarfrumvörp.

(Fréttin var uppfærð kl. 15.50 og aftur kl. 16.13).