Þing Mön mun kjósa um hvort að eyða eigi 7,5% af landsframleiðslu eyjarinnar, eða 150 milljónum sterlingspunda, í að bæta upp innistæðueigendum þann skaða sem þeir hafa hlotið vegna falls Kaupthing Singer & Friedlander, en bankinn hafði starfsstöð á eyjunni.

Þar sem að Mön er sjálfstjórnarhérað innan bresku krúnunnar ná innistæðutryggingar breskra stjórnvalda ekki til íbúa eyjarinnar, það er að segja þeirra sem geyma sparifé sitt í bönkum sem þar starfa. Að sögn breska blaðsins The Telegraph þá berjast nú um tíu þúsund innistæðueigendur reikninga Kaupthings á Mön fyrir því að fá fé sitt til baka. Samkvæmt Financial Times áttu þeir innistæður að andvirði 840 milljónir punda í Kaupthing Singer & Friedlander en aðeins um 100 milljónir punda eru í sjóðum bankans á eyjunni. Hópurinn reynir ennfremur að beita bresk stjórnvöld pólitískum þrýstingi en stjórnvöld í London hafa fryst eigur bankans á eyjunni en þær eru sagðar vera um 590 milljónir punda.

Leiðtogi eyjarskeggja kennir Gordon Brown um

Fram kemur í frétt Financial Times að málið hafi valdið spennu á milli stjórnvalda á Mön og í London, sérstaklega þar sem að fulltrúar breskra stjórnvöld hafa sýnt lítinn áhuga á að verja hagsmuni íbúa eyjarinnar í viðræðum sínum við íslensk stjórnvöld. Tony Brown, leiðtogi eyjarskeggja, hefur kennt nafna sínum Brown um málið og haft er eftir honum í Financial Times að Kaupthing Singer & Friedlander hafi verið greiðslufær og ráðið yfir fullnægjandi eiginfjárstöðu áður en að bresk stjórnvöld tóku yfir bankann.

Fall íslensku bankanna kemur einnig við aðra íbúa eyjanna í kringum Bretland og þá sem áttu innistæður hjá þeim þar. Fram kemur í The Telegraph innistæðueigendur hjá Landsbankanum í Guernsey standa frammi fyrir að tapa hundrað milljóna punda tapi. Þeir njóta ekki heldur verndar breskrar löggjafar um tryggingar innistæðna og ekki heldur neinna slíkra tryggingasjóða sem eru reknir á meginlandi Evrópu.