Ingi Björn Sigurðsson hefur verið ráðinn sem nýr fjárfestingastjóri hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og hefur nú þegar hafið störf. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Í tilkynningunni segir að Ingi Björn hafi víðtæka reynslu af umhverfi nýsköpunar- og sprotafyrirtækja og hefur síðastliðin tvö ár verið verkefnastjóri hjá Icelandic Startups. Þar stýrði hann meðal annars Nordic Scalers verkefninu sem er stuðningur og ráðgjöf við norræn vaxtarfyrirtæki.

Ingi Björn hefur á liðnum áratug verið virkur í umhverfi sprotafyrirtækja, komið að stofnun fjölda fyrirtækja, haldið ráðstefnur og aðstoðað yfir 100 fyrirtæki með fjármögnun, styrki og annað sem tengist rekstri nýsköpunarfyrirtækja. Hann situr í verkefnastjórn um mótun matvælastefnu fyrir Ísland, í stjórn Samtaka Sprotafyrirtækja og í stjórn Stjórnvísi.

Ingi Björn er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MA gráðu í hagnýtum hagvísindum frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst.

„Það er ánægjulegt að fá Inga Björn til liðs við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Sú reynsla og þekking sem hann býr yfir á stofnun og rekstri nýsköpunar- og sprotafyrirtækja mun bæði nýtast sjóðnum og þeim fyrirtækjum sem sjóðurinn hefur nú þegar og mun fjárfesta í," er haft eftir Huld Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins í tilkynningunni.