Ingi Guðjónsson, annar stofnandi Lyfju, hefur ákveðið að láta af störfum sem framkvæmdastjóri félagsins, segir í fréttatilkynningu.

Sigurbjörn Gunnarsson, viðskiptafræðingur, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Í tilkynningunni segir að Ingi hefur síðastliðin tíu ár unnið að uppbyggingu og daglegri stjórn fyrirtækisins og telur hann nú tímabært að söðla um og sinna nýjum verkefnum og fjárfestingum á eigin vegum.

Ingi mun áfram vinna með eigendum Lyfju og taka sæti í stjórn félagsins auk þess sem hann mun einbeita sér að áframhaldandi uppbyggingu á erlendri starfsemi í gegnum Litis ehf., sem er fyrirtæki í sameiginlegri eigu Inga og eiganda Lyfju. Nú rekur Litis tvær apótekakeðjur í Litháen.

Sigurbjörn er fæddur árið 1959, er viðskiptafræðingur frá HÍ og með MBA gráðu frá Edinborgarháskóla. Hann starfaði hjá Landsbanka Íslands og Landsbréfum á árunum 1986-1994. Frá árinu 1995 hefur Sigurbjörn starfað hjá VÍS, meðal annars sem deildarstjóri eignastýringar, framkvæmdastjóri fjármálaþjónustu, framvæmdastjóri Líftryggingafélags Íslands.

Þá situr Sigurbjörn í stjórnum ýmissa fyrirtækja, svo sem Lýsingar, Samkaupa, Ingvars Helgasonar ehf., Lyfjaþróunar, Íslenskrar getspár og Litís.

Sambýliskona Sigurbjörns er Jenný Sandra Gunnarsdóttir og eiga þau fjögur börn.